*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Innlent 7. apríl 2020 15:05

350 þúsund í kostnað vegna 35 þúsund króna

Flugfélag Íslands ehf. í gær dæmt til að greiða viðskiptavini 35 þúsund krónur auk vaxta og dráttarvaxta vegna innanlandsflugs sem féll niður.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Flugfélag Íslands ehf. var í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær dæmt til að greiða viðskiptavini 35 þúsund krónur auk vaxta og dráttarvaxta vegna innanlandsflugs sem féll niður. Þá var félagið dæmt til að greiða 350 þúsund krónur í málskostnað.

Í byrjun september á síðasta ári átti stefnandi málsins bókað flug frá Egilsstöðum til Reykjavíkur en flugið var fellt niður. Sama dag krafðist farþeginn þess að fá staðlaðar 250 evrur í bætur á grunni Evrópureglugerðar um réttindi flugfarþega. Var tekið fram að yrðu bæturnar ekki greiddar innan fimmtán daga yrði málinu stefnt fyrir dóm með tilheyrandi kostnaði.

Rétt rúmlega mánuði síðar, þann 11. október 2019, sendi lögmaður konunnar félaginu póst og sagði að vinna við gerð stefnu vegna málsins væri að hefjast. Bauð hann félaginu að greiða kröfuna þá þegar og myndi þá ekki koma til neins viðbótarkostnaðar. Félagið svaraði á þann veg að unnt væri að greiða kröfuna þá þegar. Degi síðar var krafan ítrekuð og þess óskað að hún yrði greidd fyrir klukkan 16.00. Ella yrði málinu stefnt fyrir dóm strax eftir helgi. Félagið svaraði á þá leið að farþeginn þyrfti að nýta sér þar til gert form á heimasíðu félagsins til að fá kröfuna greidda.

Stefna málsins var birt 17. október 2019 og málið þingfest fimm dögum síðar. Sama dag greiddi félagið farþeganum 35 þúsund krónur með millifærslu. Taldi það að með því væri skuld þess gerð upp og að bæturnar ættu ekki að bera vexti eða dráttarvexti. Á það féllst farþeginn hins vegar ekki og snerist deilan fyrir dómi um skyldu til greiðslu vaxta.

Félagið byggði sýknukröfu sína á því að um fasta fjárhæð sem farþegi ætti rétt á að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Tilgangurinn væri ekki að mæta fjárhagstapi farþegans heldur að bæta honum tímatap og óhagræði. Bréf lögmanns konunnar hefðu ekki falið í sér innheimtuviðvörun og ekki uppfyllt skilyrði til að teljast slík. Kröfu um málskostnað var einnig mótmælt sérstaklega en félagið taldi málið höfðað að þarflausu.

Að mati dómsins var um skaðabætur að ræða sem ættu að bera vexti sem slíkar samkvæmt vaxtalögum. Samkvæmt þeim bera skaðabætur vexti frá þeim degi er hið bótaskylda atvik átti sér stað. Óumdeilt var að það atvik varð 5. september 2019, það er þegar flugið var fellt niður. Bar krafan því vexti frá þeim degi.

„Þann sama dag sendi [farþeginn] kröfubréf til [Flugfélags Íslands] þar sem gerð var grein fyrir höfuðstól kröfunnar, kröfu um vexti, lagagrundvelli kröfunnar og greiðslustað, auk þess sem varað var við málshöfðun yrðu bætur ekki greiddar innan 15 daga. Af hálfu [félagsins] hefur verið lögð áhersla á að hann hafi mátt skilja tölvubréf [farþegans] frá 14. október 2019, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, með þeim hætti að þá hafi greiðslufrestur verið framlengdur eða á ný verið veittur 15 daga frestur til að inna greiðslu af hendi. Að mati dómsins er ekki unnt að fallast á þetta, enda var kröfubréfið frá 5. september 2019 skýrt og ágreiningslaust að [félagið] greiddi kröfuna ekki innan þess frests sem þar greindi,“ segir í niðurstöðu dómsins. Upphæðin ber því dráttarvexti frá 5. október 2019.

Þá féllst dómurinn ekki á að málið hefði verið höfðað að þarflausu enda var fallist á kröfu farþegans um greiðslu bóta auk vaxta. Var málskostnaður ákveðinn 350 þúsund krónur. Flugfélaginu ber því að greiða þá upphæð auk vaxta og dráttarvaxta vegna 34.923 króna að frádreginni 35 þúsund króna innborgun þann 22. október 2019.