*

mánudagur, 16. maí 2022
Innlent 1. nóvember 2021 12:04

36% hækkun íbúðaverðs í Árborg

Íbúðaverð í þéttbýliskjörnum umhverfis höfuðborgarsvæðið hækkaði á bilinu 9-36% milli ára á þriðja ársfjórðungi.

Haraldur Guðjónsson

Hækkanir á fasteignaverði einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið, heldur má sjá talsverðar hækkanir í þéttbýliskjörnum um land allt. Samkvæmt athugun Hagfræðideildar Landsbankans úr Verðsjá Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á bilinu 9-36% milli ára á þriðja ársfjórðungi í þéttbýliskjörnum umhverfis höfuðborgarsvæðið.

Í nýrri Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans kemur fram að mesta hækkunin hafi orðið í Árborg, 36%, og næstmest á Akranesi, 20%. Ef horft sé til þróunar frá upphafi árs 2015 megi sjá að íbúðaverð hafi hækkað mest í Árborg og því næst í Reykjanesbæ og á Akranesi.

„Þrátt fyrir þessar hækkanir er fermetraverð íbúða enn talsvert lægra í kjörnum utan höfuðborgarsvæðisins, á bilinu 24-37% lægra. Minnstu munar í Árborg þar sem fermetraverð er að jafnaði 24% lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir ári síðan var fermetraverðið hins vegar 34% lægra, áður en íbúðaverð í Árborg tók að hækka hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Munurinn á verðlagi eftir svæðunum fer því minnkandi þó enn sé talsvert ódýrara að kaupa húsnæði í Árborg samanborið við höfuðborgarsvæðið,“ segir í Hagsjánni.

Mikil sala og miklar verðhækkanir hafi hvatt til íbúðauppbyggingar og samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins séu nú 33% fleiri íbúðir í byggingu umhverfis höfuðborgarsvæðið samanborið við stöðuna fyrir ári síðan. Fjöldi íbúða í byggingu á fyrstu stigum hafi aukist um 96% milli ára. Til samanburðar hafi mælst samdráttur í íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu upp á 18% milli ára, en fjöldi íbúða í byggingu á fyrstu stigum aukist líkt og annars staðar.