Engar eignir fundust í þrotabúi Northern Travel Holding sem lauk skiptum þann 21. október 2016 en auglýsing skiptalokanna var ekki birt fyrr en í dag. Lýstar kröfur í þrotabúið námu 35,8 milljörðum króna en félagið varð gjaldþrota í september 2009. Northern Travel var stofnað árið 2006 og var í eigu FL Group, Sunds og Fons, félags í eigu Pálma Haraldssonar.

Fons setti norræna flugfélagið Sterling inn í Northern Travel Holding ásamt Iceland Express, 51% hlut í breska leiguflugfélaginu Astraeus, 29,26% hlut í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket og dönsku ferðaskrifstofunni Hekla Travel. Sterling tapaði peningum allan þann tíma sem íslenskir aðilar áttu félagið og fram að þroti þess haustið 2008.

Viðskipti FL Group, Fons og Sunds með eignarhluti í Sterling og öðrum ferðaþjónustufélögum á árunum 2005 til 2008 eru ein þekktustu sýndarviðskipti útrásartímans á Íslandi. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á sínum tíma kom meðal annars fram að viðskiptin hafi verið „einhver umdeildustu viðskipti Hannesar [Smárasonar, fyrrum forstjóra FL Group], og í raun alls þessa tímabils, þ.e. kaup FL Group á flugfélaginu Sterling af Fons, fjárfestingarfélagi Pálma Haraldssonar, eins helsta samverkamanns Jóns Ásgeirs.“

Viðskiptablaðið gaf út fjórtán blaðsíðna sérblað í október 2010 með greinarflokki blaðsins um NTH-viðskiptafléttu FL Group og Fons. Finna má sérblaðið undir Tölublöð .