*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 5. maí 2021 16:05

3,6 milljarða hagnaður Íslandsbanka

Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, en í fyrra tapaði bankinn 1,4 milljörðum á sama tímabili.

Ritstjórn
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.

Íslandsbanki hagnaðist um 3,6 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi, en til samanburðar nam tap bankans 1,4 milljörðum króna á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 7,7% á ársgrundvelli, samanborið við -3% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri bankans.

Eigið fé bankans nam 185 milljörðum króna í lok mars og heildar eiginfjárhlutfall bankans nam 21,9%, það er yfir markmiði bankans sem er 17,5-19%. Vogunarhlutfallið var 12,6% í lok mars samanborið við 13,6% í árslok.

Hreinar vaxtatekjur námu 8,2 milljörðum króna á fjórðungnum samanborið við 8,6 milljarða króna á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir lægra vaxtaumhverfi var vaxtamunur  2,4% samanborið við 2,8% á sama tímabili í fyrra.

Hækkun í hreinum þóknanatekjum var 14,9% á milli ára, hækkun úr 2,5 milljörðum króna í 2,9 milljarða var tilkomin vegna aukningar í bæði þóknanatekjum og -gjöldum.

Hreinar fjármunatekjur námu 293 milljónum króna, samanborið við -1,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, sem skýrist einkum af hreinum virðisbreytingum og markaðsaðstæðum.

Stjórnunarkostnaður hækkaði lítillega á milli ára og nam 5,9 milljörðum króna á fjórðungnum, miðað við 5,7 milljarða í fyrra. Hækkunin í launalið skýrist einkum af samningsbundnum kjarahækkunum og starfslokagreiðslum á meðan annar rekstrarkostnaður lækki á milli ára.

Kostnaðarhlutfallið lækkar á milli ára og var 52% á fyrsta fjórðungi samanborið við 62.9% á sama tíma í fyrra. Aukning í notkun á stafrænum lausnum spilo þar lykilhlutverk.

Neikvæð virðisbreyting útlána er mun lægri á fyrsta ársfjórðungi ársins en á sama tíma i fyrra, samtals 518 milljónir króna samanborið við 3,5 milljarða á fyrsta fjórðungi í fyrra. Þessi þróun skýrist af batnandi efnahagsaðstæðum. Hrein virðisbreyting útlána til viðskiptavina var 0,05% á fyrsta ársfjórðungi (0,20% á ársgrundvelli) en var 0,91% fyrir árið 2020.

Útlán til viðskiptavina jukust um 2,3% á fjórðungnum en þar vegur þyngst aukning húsnæðislána. Hlutfall lána með laskað lánshæfi lækkaði um 0,5% frá árslokum og var 2,4% (miðað við vergt bókfært virði) í lok mars. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 19 milljarða króna eða 2,8% frá áramótum.

Að lokum segir í tilkynningu bankans að lausafjárstaða hans sé áfram sterk og öll lausafjárhlutföll vel yfir kröfum eftirlitaðila.

Stikkorð: Íslandsbanki uppgjör