Samanlagður hagnaður stóru tryggingafélaganna þriggja, VÍS, Sjóvár og TM dróst saman um 83% á fyrri helmingi þessa árs miðað við sama tíma í fyrra eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær . Verri afkoma trygginafélaganna milli ára þarf ekki að koma mikið á óvart. Öll sendu þau frá sér neikvæðar afkomuviðvaranir fyrir annan ársfjórðung þessa árs þar sem greint var frá því að fjárfestingatekjur myndu dragast saman vegna óhagstæðrar þróunar á hlutabréfamörkuðum auk þess sem tveir stórbrunar urðu á ársfjórðungnum.

VÍS tapaði 291 milljón króna á öðrum ársfjórðungi en meðaltal afkomuspáa sem Viðskiptablaðið komst yfir gerði ráð fyrir 267 milljóna tapi. VÍS hagnaðist um 917 milljónir á sama ársfjórðungi í fyrra. Tap Sjóvár nam 630 milljónum króna, samanborið við 702 milljóna hagnað á síðasta ári. Afkoma Sjóvar var verri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir en meðaltal þeirra nam 575 milljóna króna tapi. Þá tapaði TM 140 milljónum króna en félagið skilaði 909 milljóna hagnaði á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Afkoma TM var örlítið betri en greiningaraðilar höfðu búist við en meðaltal þeirra gerði ráð fyrir 170 milljóna tapi.

Samtals nam tap félaganna þriggja því 1.061 milljón króna á öðrum ársfjórðungi en félögin högnuðust um rúmlega 2,5 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Viðsnúningurinn var því neikvæður um tæplega 3,6 milljarða á milli annars ársfjórðungs 2017 og 2018.

Þungur ársfjórðungur

„Annar ársfjórðungur var slæmur fyrir afkomu tryggingafélaganna,“ segir Stefán Broddi Guðjónsson, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. „Félögin sendu öll frá sér afkomuviðvörun á fjórðungnum og þar af sendi VÍS frá sér tvær. Það er tvennt sem kom til. Annars vegar þessi tvö stóru brunatjón sem urðu á fjórðungnum og þar að auki voru innlendir eignamarkaðir mjög þungir á tímabilinu. Þessi slæma afkoma var því nokkuð fyrirsjáanleg og uppgjörin staðfestu í raun það sem fram hafði komið í afkomuviðvörunum félaganna og vænta mátti miðað við þróun eignamarkaða.“

Að sögn Stefáns er þó eðlilegt að miklar sveiflur geti verið milli ársfjórðunga hjá tryggingarfélögum þar sem þau ráði litlu sem engu um þróun eignamarkaða eða hvenær stór tjón eiga sér stað. „Starfsemi þessara félaga felst í því að tryggja. Ef það væru aldrei nein tjón þá myndi enginn tryggja og þar af leiðandi væru ekki til nein tryggingafélög. Þetta er sögulega mjög óvenjulegt að svona stór tjón falli með svona stuttu millibili. Þannig að tjónamegin er það kjarninn í þessu. Síðan eru eignamarkaðir sveiflukenndir í eðli sínu og þetta var bara erfiður fjórðungur. Þar að auki geta félögin ekki valið að tryggja ekki á ákveðnum fjórðungum eða að fjárfesta ekki. Það sem þau geta hins vegar gert er að haga eignasafni sínu þannig að þau lesi rétt í hagsveiflu og eignamarkaði en það er hins vegar hægara sagt en gert. Félögin eru auk þess ekki skammtímafjárfestar heldur fara  þau eftir afmarkaðri fjárfestingarstefnu. Þar af leiðandi munu þau alltaf verða mjög útsett fyrir sveiflum á eignamörkuðum og eðli málsins samkvæmt fyrir stórum tjónum þegar þau falla og auðvitað er það ekki fyrirsjáanlegt hvar þau bera niður.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .