*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 5. apríl 2017 18:57

36 milljarða velta í mars

Heildarvelta á fasteignamarkaðinum á höfuðborgarsvæðinu nam 35,7 milljörðum króna í mars. Þetta kemur fram á heimasíðu Þjóðskrár Íslands.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í mars 2017 var 776, en meðalupphæð á hvern kaupsamning var 46 milljónir króna.

Viðskipti með eignir í fjölbýli námu 22,8 milljörðum, viðskipti með eignir í sérbýli 9,3 milljörðum og viðskipti með aðrar eignir 3,6 milljörðum króna.

Þegar mars 2017 er borinn saman við febrúar 2017 fjölgar kaupsamningum um 21,1% og velta eykst um 13,6%. Í febrúar 2017 var 641 kaupsamningi þinglýst, velta nam 31,4 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 49 milljónir króna.

Þegar mars 2017 er borinn saman við mars 2016 fjölgar kaupsamningum um 5,3% og velta eykst um 12,1%. Í mars 2016 var 737 kaupsamningum þinglýst, velta nam 31,9 milljörðum króna og meðalupphæð á hvern kaupsamning 43,2 milljónir króna.

Þjóðskrá Íslands vekur þó sérstaka athygli á því að meðalupphæð kaupsamnings sé ekki hægt að túlka sem meðalverð eigna og þar með sem vísbendingu um verðþróun. Þetta er vegna þess að hver kaupsamningur getur verið um fleiri en eina eign auk þess sem eignir eru misstórar og misgamlar.

Stikkorð: Fasteignir Samningar Markaðurinn