Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir að í lok árs verði hluthafar búnir að fá um 36 milljarða króna í formi arðs og endurkaupa bankans á eigin bréfum. Á markaðsdegi Arion banka, sem haldinn var í nóvember kom fram að hann gæti losað um 30 milljarða króna til viðbótar – þá bæði til viðbótar við þessa 36 milljarða og það sem búið er að leggja til hliðar af hagnaði þessa árs fyrir arðgreiðslu á næsta aðalfundi – án þess að fara niður fyrir markmið um eiginfjárhlutfall. Ef Samkeppniseftirlitið leggur blessun sína yfir söluna á Valitor mun hún einnig losa um verulegar fjárhæðir eða 12 til 13 milljarða króna af eigin fé sem bankinn þarf ekki lengur að binda.

„Þrátt fyrir þessa 36 milljarða þá hefur fjármunamyndun í rekstrinum batnað svo mikið að eiginfjárhlutföllin eru lítið breytt. Bankinn er því enn með töluvert meira eigið fé en hann ætlar sér að vera með í sínum rekstri. Við höfum sagt það lengi að við viljum fara með eiginfjárhlutfallið niður í 17%, sem er töluvert fyrir ofan lögbundið lágmark en samt tvisvar til þrisvar sinnum meira eigið fé en norrænu bankarnir eru með, en þetta er bara það umhverfi sem við störfum í.

Miðað við hvernig reksturinn okkar er þá er engin ástæða fyrir bankann að vera með þetta mikið eigið fé. Við sjáum ekki vaxtatækifæri til þess að nýta þessa fjármuni því okkar útlánageta er takmörkuð af öðrum fjármögnunarmöguleikum. Við getum því ekki nýtt allt þetta eigið fé í útlán og þess vegna er því betur komið hjá hluthöfum, sem geta þá nýtt það í fjárfestingar.“

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Benedikt Gíslason í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .