Karlmaður var í Landsrétti fyrir helgi sýknaður af kröfu Landsbankans um greiðslu á 36 milljón króna skuld samkvæmt lánssamningi frá 2007. Ástæðan fyrir sýknunni var sú að rétturinn taldi kröfu bankans vera fyrnda og staðfesti þar með héraðsdóm.

Lánið var tekið í júlí 2007 í dönskum krónum. Var það til sex mánaða með einum gjalddaga og var það jafnvirði 25 milljón íslenskra króna. Var lánið hugsað til kaupa á hlutafé í Færeyjabanka, nú Bank Nordik, við skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Voru bréfin sett að handveði til tryggingar greiðslu málsins.

Í ágúst 2008 seldi Landsbankinn bréfin og keypti eigin bréf fyrir andvirðið. Mánuði síðar óskaði maðurinn eftir því að bréfin í Landsbankanum yrðu seld og keypt á ný bréf í Færeyjabanka. Því hafnaði bankinn. Nokkrum dögum síðar rúllaði bankinn og veðið varð verðlaust. Fjórum sinnum var gerð skilmálabreyting á láninu með það að marki að breyta gjalddaga og lengja lánstímann.

Eftir að gengislánadómur Hæstaréttar lá fyrir var höfuðstóll lánsins endurreiknaður og lækkaði hann við það úr rúmum 60 milljón krónum í rúmar 36 milljónir króna. Skuldarinn neitaði greiðsluskyldu og taldi bankann hafa valdið sér tjóni með því að selja bréfin í Færeyjabanka. Þær bætur ættu að koma til skuldajafnaðar.

Á vormánuðum 2011 var manninum sendur greiðsluseðill vegna lánsins þar sem hann var krafinn um greiðslu þess. Þá barst honum vanskilatilkynning í maí það ár, ítrekun um sumarið og í lok árs var lánið sent í milliinnheimtu. Tæp fjögur ár liðu hins vegar þar til að innheimtubréf var sent. Haustið 2016 var höfðað mál til innheimtu lánsins en það fór aldrei fyrir dóm. Nýtt mál var höfðað í nóvember 2018.

Fyrir Landsrétti byggði Landsbankinn á því að um hefðbundið peningalán hefði verið að ræða. Skuldarinn sagði á móti að þarna hefði verið á ferð ólögmætt gengislán og um uppgjörskröfu vegna ólögmætrar verðtryggingar væri að ræða. Samkvæmt því færi um fyrningu samkvæmt fjórtánda bráðabirgðaákvæði laga um vexti og verðtryggingu. Þar teldist fyrningarfrestur vera átta ár frá 16. júní 2010 og krafan því fyrnd. Bankinn taldi á móti að fresturinn væri tíu ár.

Skemmst er frá því að segja að Landsréttur féllst á rök skuldarans. Í dóminum segir meðal annars „[m]ál þetta er í hinum áfrýjaða dómi sagt höfðað 1. nóvember 2018 og er það óumdeilt með aðilum en birtingarvottorð er ekki meðal málsgagna. Samkvæmt því og með vísan til upphafstíma átta ára fyringarfrests 16. júní 2010, sem lögfestur var með fyrrnefndu bráðabirgðaákvæði, var hin umdeilda krafa [Landsbankans] á hendur [manninum fyrnd] þegar [bankinn] höfðaði málið 1. nóvember 2018.“

Bankanum var gert að greiða manninum 1,6 milljónir króna í málskostnað.