Larry Fink, forstjóri fjárfestingarrisans BlackRock, var með 36 milljónir dala í árslaun í fyrra eða um 4,7 milljarða króna. Það er 21% aukning frá árinu 2020, að því er kemur fram í grein hjá Bloomberg .

Fink var með 1,5 milljónir dala í grunnlaun. 11,3 milljónir dala fékk Fink í formi bónusgreiðslna og 18,4 milljónir dala í formi hvatalauna. Auk þess fékk Fink 4,9 milljónir dala í kauprétti.

Eignir BlackRock hafa aldrei verið meiri en árið 2021, en þær voru á tímabili orðnar meiri en 10 þúsund milljarðar dala ($10 trillion).

Fink er ekki eini háttsetti starfsmaður BlackRock sem fékk rausnarlega launahækkun á milli ára. Árslaun Rob Kapito, forseta félagsins, hækkuðu um 17% á milli ára og voru tæplega 29 milljónir dala í fyrra. Árslaun Rob Goldstein, framkvæmdastjóra félagsins, hækkuðu um 15% á milli ára og voru um 13,5 milljónir dala í fyrra.