"Ég er ekkert að fara í einhver smáatriði um okkar viðskipti umfram það sem fram kemur í ársreikningnum," segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, í samtali við Viðskiptablaðið aðspurður um hvaða þrír aðilar það voru sem fengu greiddar 36 milljónir króna í verktaka- ráðgjafa og leigugreiðslur frá félaginu. Hann vildi ekki staðfesta að um væri að ræða Ingibjörgu Pálmadóttur, sem er eini aðilinn sem gefinn er upp sem hluthafi í fyrirtækinu í ársreikningi þess.

365 miðlar, sem meðal annars rekur Fréttablaðið og Stöð 2, greiddu þremur hluthöfum og tengdum aðilum 36 milljónir króna í verktakagreiðslur, ráðgjafarlaun og leigugreiðslur á árinu 2011. Þetta kemur fram í ársreikningi 365 miðla sem skilað var inn til Fyrirtækjaskrár á dögunum. Áður hafði fyrirtækið birt ársreikning á heimasíðu sinni en í ársreikningnum sem skilað var til Fyrirtækjaskrár má finna ítarlegri skýringar við ársreikninginn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.