Festi hefur sagt upp 36 starfsmönnum í hagræðingaraðgerðum vegna samruna N1 og Krónunnar, en sameinað félag tók í kjölfarið upp nafnið Festi. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins í morgun.

Um er að ræða 30 stöðugildi, flest í stoðdeildum í höfuðstöðvum félagsins, en meðal stöðugilda sem lögð voru niður voru forstjóri, fjármálastjóri, auk tíu stöðugilda á fjármálasviði. Þá var einnig hagrætt í mannauðsdeild og tölvurekstri.

Í tilkynningu til kauphallarinnar vegna samrunans kom fram að gert er ráð fyrir 500-600 milljóna króna samlegðaráhrifum á næstu 12-18 mánuðum.