*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 24. maí 2013 14:22

36 útskrifast úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa

Sigurður Atli Jónsson hjá MP banka segir vottun fjármálaráðgjafa skila sér í auknu trausti á fjármálafyrirtækjum.

Ritstjórn

36 starfsmenn fjármálafyrirtækja útskrifuðust frá Háskólanum Reykjavík í gær úr námi til vottunar fjármálaráðgjafa. Nú hafa 73 starfsmenn í einstaklingsráðgjöf á fjármálamarkaði fengið slíka vottun en þetta er annað árið sem boðið er upp á slíkt nám og vottunarpróf. Að náminu standa atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja og Samtök fjármálafyrirtækja.

Fram kemur í tilkynningu frá Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) að markmið vottunarinnar er að samræma þær kröfur sem eru gerðar til fjármálaráðgjafa og tryggja að þeir búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi.

Verkefnið á sér norska fyrirmynd en slíkt vottunarferli hefur verið að ryðja sér til rúms í nágrannalöndunum á undanförnum árum.

Í tilkynningu um útskriftina segir að Sigurður Atli Jónsson, bankastjóri MP banka, ávarpaði útskriftargesti fyrir hönd stjórnar SFF og sagði hann m.a. að vottunarverkefnið væri ákaflega mikilvægt og skila sér í auknu trausti almennings á fjármálafyrirtækjum. Hann sagði enn fremur að vottunnarverkefnið væri gott dæmi um farsælt og ánægjulegt samstarf atvinnulífsins og háskólasamfélagsins sem væri að skila sér í því að fjármálaráðgjafar fengju viðurkennda vottun á færni sinni og þekkingu til að mæta sívaxandi kröfum viðskiptavina bankanna. Í ræðu sinni kom Sigurður Atli inn á þau tímamót sem ættu sér nú stað vegna stjórnarskipta og lýsti því yfir fyrir hönd SFF að samtökin væru reiðubúin að vinna með nýrri ríkisstjórn að öllum góðum málum.