Um 36% landsmanna vill að Ólafur Ragnar Grímsson gegni áfram stöðu forseta Íslands ef marka má nýja könnun Capacent. Þá vilja 18% að Ragna Árnadóttir gengi embættinu og 5% að Davíð Oddsson gegni embættinu.

Sem kunnugt er hefur Ólafur Ragnar gefið í skyn að hann ætli sér ekki að gefa kost á sér til endurkjörs í sumar. Í nýlegri könnun Capacent, sem framkvæmd var snemma í janúar, voru landsmenn spurðir hvern þeir vildu sjá gegna embættinu. Spurningin var opin, þ.e. engin svarkostir voru gefnir upp.

Ríflega helmingur aðspurðra tók afstöðu og sem fyrr segir nefndu langflestir Ólaf Ragnar, eða nær 36%. Fleiri konur en karlar nefndu Rögnu Árnadóttur og fleiri meðal eldra fólks en yngra. Fleiri nefndu Ólaf Ragnar meðal íbúa landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins.

Athygli vekur að mikill munur er á svörum eftir stjórnmálaskoðunum. Rúmlega 60% þeirra sem sögðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag nefndu Ólaf Ragnar. Til samanburðar nefndu aðeins 15% þeirra sem sögðust myndu kjósa Samfylkinguna, tæplega 30% þeirra sem sögðust myndu kjósa Vinstri græna og 40% þeirra sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn Ólaf Ragnar. Þá mældist Ragna vinsælust meðal þeirra sem sögðust myndu kjósa Samfylkinguna á meðan enginn þeirra nefndi Davíð Oddsson. 14% þeirra sem sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn nefndu Davíð Oddsson.

60% ánægð með störf Ólafs Ragnars

Þegar spurt var um ánægju með störf Ólafs Ragnars Grímssonar sögðust nær sex af hverjum tíu vera ánægðir með störf hans. Síðast var spurt um ánægju með störf forsetans í febrúar 2009 og var þá aðeins 31% þeirra sem tóku afstöðu ánægt með störf hans en það var stuttu eftir hrun bankanna og búsáhaldabyltingin stóð sem hæst. Þar áður var spurt um ánægju með störf forsetans í janúar 2008 og var þá mun hærra hlutfall ánægt með störf hans eða 87% þeirra sem tóku afstöðu.

Mest var ánægjan með Ólaf Ragnar meðal þeirra sem myndu kjósa Framsóknarflokkinn, eða 81% og Sjálfstæðisflokkinn, eða 68%. Þá sögðust aðeins 32% þeirra sem myndu kjósa Samfylkinguna vera ánægð með störf Ólafs Ragnars á meðan 50% kjósenda Samfylkingarinnar er óánægð með störf hans.

Sjá könnunina í heild sinni.