Harpa skilaði hagnaði upp á 172 milljónir í fyrra eftir skatta, samanborið við 1.419 milljóna króna tap í fyrra. Samkvæmt efnahagsreikningi eykst eigið fé félagsins úr 99 milljónum króna í röskan milljarð. Aðalfundur félagsins var haldinn í dag.

Í tilkynningu frá Hörpu segir að þótt þessi niðurstaða sé auðvitað hagfelld gefi hún takmarkaða mynd af eiginlegum rekstri hússins, því ársreikningurinn sé í senn heimild um reksturinn sem og lán sem hvíli á byggingunni sjálfri, fjármagnskostnað og afskriftir.  Þannig fer eins milljarðs framlag ríkis og borgar alfarið í afborganir af láninu sem hvílir á byggingunni, en eiginlegt framlag eigenda til rekstrar hússins er 160 milljónir.

„Helsta ástæðan fyrir jákvæðri afkomu ársins er sú að við sölu á lóðum systurfélags Hörpu, Situsar, féll samkvæmt samningi frá 2009 niður lán LBI hf og nemur nettó afskrift vegna niðurfellingar þess 1.300 milljónum króna.  Eiginfjárstaða félagsins batnar líka vegna þess að eigendur breyttu 794 milljóna króna brúarláni í stofnfé Hörpu. Þannig skila ráðstafanir síðasta árs sér í bættri stöðu félagsins,“ segir í tilkynningu frá Hörpu.

Sé horft á reksturinn í húsinu eingöngu, án tillits til ofangreindra fjármagnsliða, er rétt þess að geta að eigin tekjur Hörpu aukast úr 644 milljónum í 873 milljónir. Gjöld aukast einnig um 175 milljónir þannig að félagið bætir reksturinn um 55 milljónir króna frá fyrra ári. Það er gott skref en undir áætlunum. Tap af rekstri Hörpu án fjármagnsliða fer úr 585 milljónum árið 2012 í 360 milljónir að meðtöldu framlagi eigenda.

Á aðalfundinum var ákveðið að fækka í stjórn úr 7 í 5. Í stjórn voru kjörin Guðfinna S. Bjarnadóttir, formaður, og meðstjórnendurnir Svanhildur Konráðsdóttir, Kjartan Örn Ólafsson, Vilhjálmur Egilsson og Ásta Möller.