Heilbrigðisútgjöld hins opinbera námu 360 þúsund krónum á hvern Íslending á síðasta ári. Það er 32 þúsund krónum minna en árið 2011. Þetta kemur fram í bráðabirgðauppgjöri Hagstofunnar á fjármálum hins opinbera árið 2012.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála voru 145 milljarðar sem nemur um 8,5% af landsframleiðslu. Þar af nam hlutur hins opinbera 116 milljörðum króna en hlutur heimilanna um 29 milljörðum króna. Heimili greiddu því um 21% af heildarkostnaði. Sé litið aftur til ársins 2008 kemur í ljós að opinber útgjöld í þessum málaflokki hafa lækkað um 56 þúsund krónur á mann miðað við verðlag síðasta árs. Það er 13% samdráttur. Lítil raunbreyting varð á þessum útgjöldum á tímabilinu 2002- 2008 og voru þau um 425-440 þúsund krónur á mann.