Kynnisferðir högnuðust um 48 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 314 milljón króna tap árið 2017 samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2018. 362 milljón króna viðsnúningur varð því á rekstri félagsins frá fyrra ári.

Tekjur félagsins námu 9,1 milljarði króna sem gerir fyrirtækið að langstærsta hópferðafyrirtæki landsins en velta félagsins jókst um milljarð á milli ára. EBITDA nam 1.476 milljónum króna og jókst einnig um 362 milljónir milli ára. Þá nam rekstarhagnaður (EBIT) 481 milljón og jókst um 430 milljónir milli ára.

Eignir félagsins námu 9.085 milljónum króna í árslok og lækkuðu um 95 milljónir milli ára. Handbært fé í lok árs nam 205 milljónum og jókst um 121 milljón frá fyrra ári. Eiginfjárhlutfall nam 13,8% í lok árs.

Óhætt er að segja að síðasta ár hafi verið ólíkt rekstrarlega hjá stærstu hópferðafyrirtækjum landsins sem skilað hafa uppgjöri fyrir síðasta ár. Snæland Grímsson hagnaðist um 93 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaður félagsins saman um 38 milljónir milli ára. Þá tapaði Allrahanda GL , leyfishafi Gray Line á Íslandi 516 milljónum króna á síðasta ári og jókst tap félagsins um 321 milljón milli ára.