MMR hefur birt niðurstöður úr nýrri könnun þar sem athugað var fylgi stjórnmálaflokka og stuðningur við ríkisstjórnina. Stuðningur við ríkisstjórnina mældist nú 36,4% en hann var 34,1% í síðustu mælingu, sem lauk þann 29. janúar sl., og 34,8% um miðjan janúar sl.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist nú 25,5%, borið saman við 24,9% í síðustu könnun. Stuðningur við Bjarta framtíð mældist nú 15% samanborið við 16,8% í síðustu könnun, en fylgi Samfylkingarinnar mældist 14,5% og minnkar um 0,2% frá fyrri könnun.

Framsóknarflokkurinn mældist með 13,1% fylgi borið saman við 12,7% í síðustu könnun. Fylgi Vinstri grænna mældist 12,9% samaborið við 12% síðast og stuðningur við Pírata er nú 12,8% borið saman við 14% í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir 2%.

Svarfjöldi könnunarinnar var 975 einstaklingar og var hún framkvæmd á tímabilinu 13. til 19. febrúar sl.