Fyrirtækið 365 mun bjóða upp á farsímaþjónustu frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Farsímaþjónustan skiptist í þrjú þrep og munu viðskiptavinir ekki þurfa að velja eitt þeirra, heldur mun notkun hvers og eins í hverjum mánuði ákveða hagkvæmasta þrepið hverju sinni. Þrepin eru eftirfarandi:

1. 0 til 60 mínútur og sms á 0 krónur.
2. 60 til 365 mínútur og sms á 2.990 krónur.
3. Endalaus innlend notkun í borðsíma og farsíma á 4.990 krónur.

„Við fögnum því að með sameiningu 365 miðla ehf. og Tals undir merkjum 365 verður til nýtt og öflugt félag á markaði fjölmiðlunar og fjarskipta sem á sér enga hliðstæðu hér á landi. Okkur gefst nú kostur á að samnýta reynslu, þekkingu og krafta fyrirtækjanna, bjóða upp á fjölbreyttara vöruúrval og enn betri þjónustu enda hefur sameiningin í för með sér stóraukin þægindi og hagkvæmni fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla.