Mál Petreu Ingileifar Guðmundsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Tals, gegn 365 miðlum mun ekki fara fyrir Hæstarétt en rétturinn hafnaði beiðni fyrirtækisins um áfrýjunarleyfi. Dómur Landsréttar um að 365 beri að greiða 2,3 milljónir auk dráttarvaxta stendur því.

Petrea hóf störf hjá Tali í október 2013 en félagið rann inn í 365 í byrjun árs 2015. Ári síðar, í mars 2016, sagði hún upp störfum og í maí var henni tjáð af forstjóra að vinnuframlags væri ekki óskað það sem eftir lifði af sex mánaða uppsagnarfresti.

Laun í uppsagnarfresti voru greidd en auk þess hafði Petrea áunið sér 30 daga orlofsrétt á tímabilinu 2015-16 sem hún gat nýtt á komandi orlofsári. Taldi 365 að heimilt væri að ráðstafa áunnu en óteknu orlofi inn í uppsagnarfrest þar sem vinnuframlagi í uppsagnarfresti hefði verið hafnað. Því undi Petrea ekki og höfðaði mál til innheimtu orlofsins.

365 krafðist sýknu og taldi að þar sem uppsagnarfresturinn hefði náð yfir hefðbundinn sumarleyfistíma hefði ekki borið að greiða það sérstaklega. Þar sem hún naut lengri uppsagnarfrestar en að lágmarki er kveðið á um hefði fyrirtækinu verið heimilt að ráðstafa orlofinu á það tímabil einhliða.

Héraðsdómur féllst ekki á þau rök og Landsréttur ekki heldur og var 365 ekki talið heimilt að ráðstafa orlofinu einhliða innan uppsagnarfrest þar sem Petrea hefði sennilega „tekið út sumarfrí um sumarið“. Upphafstímabil dráttarvaxta var mánuði seinna í dómi Landsréttar, það er 1. október 2016.

Í leyfisbeiðni byggði 365 á því að rökstuðningi Landsréttar hefði verið áfátt, dómurinn hefði verið rangur að efni til og að hann myndi hafa verulegt fordæmisgildi um þrætuefnið. Hæstiréttur féllst ekki á það og því stendur dómurinn óhaggaður.