Krafa 365 miðla um aðgang að viðskiptamannagrunni Canal Digital Íslandi er að öllum líkindum verulega samkeppnishamlandi og kann að vera um misnotkun fyrirtækisins á markaðsráðandi stöðu að ræða, samkvæmt bráðabirgðaúrskurði Samkeppniseftirlits sem birtur var í morgun. Samkeppniseftirlitið segir brýna nauðsyn á að beina þeim fyrirmælum til 365 að afhenda sjónvarpsmerki stöðva sinna þegar í stað til Canal Digital, gegn því þó að síðarnefnda fyrirtækið uppfylli þær kröfur 365 sem brjóta ekki gegn samkeppnislögum.

Ákvörðun eftirlitsins gildir til 1. apríl 2008

Málavextir eru þeir helstir að Canal Digital, sem hyggst dreifa sjónvarpsefni hérlendis, fór fram á við 365 að fá aðgang að sjónvarpsmerkum fyrirtækisins.  365 synjaði kröfunni nema gegn því skilyrði að fá aðgang að viðskiptamannagagnagrunni Canal Digital. Í kjölfarið sendi Canal Digital kvörtun til Samkeppniseftirlitsins og krafðist jafnframt þess að 365 yrði gert skylt að afhenda Canal Digital sjónvarps- og útvarpsmerki innlendra stöðva 365 miðla, án frekari skilyrða. Samkeppniseftirlitið telur að aðgangur 365 miðla að viðskiptamannaskrá Canal Digital geti gert hinu markaðsráðandi fyrirtæki mögulegt að beina markaðsatlögu sinni beint að viðskiptavinum Canal Digital og raska með því samkeppni. Myndi krafa 365 miðla, væri hún samþykkt, sennilega takmarka samkeppni verulega og hafa útilokandi áhrif á markaði þar sem 365 miðlar eru „með einstaka yfirburðastöðu á íslenska markaðnum fyrir áskriftarsjónvarp”.