Í gær lauk rafrænu uppboði á tíðniheimildum fyrir 4G farsímaþjónustu á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar. Fjórir tóku þátt í uppboðinu, 365 miðlar ehf, Fjarskipti hf, Nova ehf. og Síminn hf. Miðað við niðurstöðurnar hefur öllum fjórum fyrirtækjunum tekist að tryggja sér tíðnisvið, en fjöldi tíðnisviðanna er mismundandi eftir fyrirtækjum.

365 miðlar ehf. áttu hæsta boð í tíðniheimildir A og B, Fjarskipti hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir D, E og I, Nova átti hæsta boð í tíðniheimildir C og J og Síminn hf. átti hæsta boð í tíðniheimildir F, G og H.

Tilboð 365 miðla í tíðniheimild A nam 100 milljónum króna, en samtals námu tilboð í allar heimildirnar tíu 226 milljónum króna. Næst hæsta tilboðið kom frá Fjarskiptum í tíðniheimild E og nam það 21 milljón króna. 365 miðlar greiða því fimmfalt hærra verð fyrir sína heimild en.

Taka ber þó fram að lágmarksfjárhæð í tíðniheimild A var 100 milljónir króna og gat fyrirtækið því ekki boðið lægra í þessa heimild. Þá eru tíðniheimildirnar misstórar. Tíðniheimild A er 10 MHZ, heimildir B-H eru 5 MHz. Þá er heimild A til tuttugu og fimm ára og heimildir B-H til tíu ára. Má því segja að einingarverðið sé hið sama fyrir heimild A og B. Almennt voru tilboð fyrirtækjanna mjög nálægt lágmarksfjárhæðum sem Póst- og fjarskiptastofnun setti í upphafi.

Í frétt á vefsíðu Póst- og fjarskiptastofnunar segir að niðurstaða uppboðsins þýði að nýtt fjarskiptafyrirtæki, 365 miðlar, sæki nú inn á íslenskan fjarskiptamarkað. Með því að bjóða í tíðniheimild A hefur fyrirtækið skuldbundið sig til að byggja upp næstu kynslóðar farnet sem ná skal til 99,5% íbúa á hverju skilgreindu landssvæði fyrir sig. Farnetið verður því eitt stærsta fjarskiptanet landsins. Uppbyggingu þess á að vera lokið fyrir lok árs 2016 og skal það þá bjóða upp á 10 Mb/s gagnaflutningshraða. Gagnaflutningshraðinn verður síðan aukinn og skal vera orðinn 30 Mb/s í lok árs 2020.