Hagnaður 365 miðla eftir skatta á fyrri hluta árs nam 195 milljónum króna sem var 273 milljón króna viðsnúningur. Félagið tapaði því 78 milljónum króna á fyrri hluta ársins í fyrra. Rekstrarhagnaður 365 fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á fyrri hluta þessa árs nam 563 milljónum króna. EBITDA félagsins var jákvæð um 309 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður félagsins nam 17 milljónum króna í fyrra og árið 2015 var afkoman jákvæð um 22 milljónir króna. Tekjur félagsins í fyrra námu 11,1 milljarði króna. Samkvæmt frétt sem birtist í Fréttablaðinu og byggir á fréttatilkynningu frá 365 miðlum er gert ráð fyrir því að hagnaður yfirstandandi árs verði umtalsvert meiri en árið 2016.

Haft er eftir Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur, forstjóra 365, að rekstrarárangur 365 miðla sé ánægjulegur og eftirtektarverður, ekki síst í því ljósi að íslensk, frjáls fjölmiðlun eigi verulega undir högg að sækja um þessar mundir. „Kemur þar einkum tvennt til; mikil umsvif ríkisins á auglýsingamarkaði, og innkoma erlendra efnisveitna, sem lúta ekki sömu lögmálum og innlendir einkareknir fjölmiðlar og starfa m.a. frjálsir án afskipta fjölmiðlanefndar. 365 miðlar búa hins vegar að öflugu vöruframboði og frábæru starfsfólki – framtíðin er því björt,“ er haft eftir Ingibjörgu.

Í lok ágúst var tilkynnt um það að að móðurfélag Vodafone, Fjarskipti, hygðist kaupa 365 miðla. Kaupverð er allt að 3,4 milljarðar króna greit með 1,7 milljörðum króna í reiðfé annars vegar og hlutum í Fjarskiptum hins vegar, auk yfirtöku á vaxtaberandi skulda að fjárhæð 4,6 milljarða króna. Samkeppniseftirlitið skoðar nú samrunann. Fyrir skömmu tilkynnti stofnunin um að fyrirsjáanlegt væri að áframhaldandi tafir verði á málsmeðferð vegna mikils álags.