Hagnaður 365 miðla jókst um 452 milljónir á milli áranna 2012 og 2013. Samkvæmt árseikningi, sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag, nam hagnaður 365 miðla 757 milljónum á síðasta ári samanborið við 305 milljónir árið 2012. Aukningin nemur 148 prósentum.

Í fyrra nam heildarveltan 9.437 milljónum og  var EBITDA-hagnaður 1.454 milljónir króna. Afskriftir og fjármagnsliðir námu 541 milljón króna.

Langtímaskuldir 365 miðla lækkuðu um 600 milljónir á síðasta ári og stóðu í 2,7 milljörðum króna um áramótin að því er fram kemur í Fréttablaðinu.

Í samtali við blaðið segir Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, að sala Póstmiðstöðvarinnar, sem meðal annars dreifir Fréttablaðinu, á árinu og aðrir óreglulegir liðir hafi haft jákvæð áhrif á niðurstöðu ársins, sem nemi um þriðjungi rekstrarhagnaðar.