365 miðlar hafa keypt miðasölufyrirtækið Miða.is að undangengnu samþykki Samkeppniseftirlits fyrir kaupunum. Haft er eftir Ólafi Thorarensen, framkvæmdastjóra Miða.is, á Vísi.is að fyrirtækið hafi verið í söluferli í um tvö ár og því erfitt að halda fullum dampi í rekstrinum. Morgunblaðið greindi frá því í desember að 365 miðlar hafi keypt Miða.is í fyrra með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Það var Straumur fjárfestingarbanki sem seldi reksturinn.

Þá er haft eftir Ara Edwald, forstjóra 365 miðla, að Samkeppniseftirlitið hafi sett ákveðna fyrirvara við kaupin. 365 miðlar muni reka Midi.is í sér félagi auk þess sem eignarhaldið sé bundið ákveðnum reglum um það hvernig fyrirtækið geti nýtt miðla 365 fyrir Midi.is.

Stjórn Miða.is skipa Þórður Már Jóhannesson, sem er formaður, Erling Freyr Guðmundsson og Svanur Valgeirsson. Þórður var forstjóri Straums frá stofnun fjárfestingarbankans og fram á mitt ár 2006.