365 miðlar og Tal hafa nú sameinast undir merkjum 365, en Samkeppniseftirlitið heimilaði samruna félaganna í dag.

„Miklar breytingar eru að verða á afþreyingar- og fjarskiptamarkaði og sameinuð munu félögin geta boðið viðskiptavinum sínum upp á spennandi lausnir. Til að mynda eru miklar breytingar framundan á dreifingu sjónvarpsefnis þar sem snjalltæki eru í auknum mæli að taka við hlutverki hinna hefðbundnu myndlykla,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla.

Eina áþreifanlega breytingin fyrir viðskiptavini félaganna fyrst í stað er sú að Tal mun flytja með skrifstofu og verslun úr Grímsbæ í höfuðstöðvar 365 í Skaftahlíð. Þar með verður stigið fyrsta skrefið í að samþætta þjónustu beggja fyrirtækjanna.

Viðskiptavinir 365 og Tals nota sömu samskiptaleiðir og áður til að hafa samband við fyrirtækin. Viðskiptavinir 365 hringja áfram í 512-5100 og fara inn á 365.is til að nálgast upplýsingar um vörur og þjónustu. Það sama gildir um viðskiptavini Tals, þeir hringja áfram í 1817 og fara inn á tal.is.