*

þriðjudagur, 18. júní 2019
Innlent 21. september 2018 15:13

365 miðlar töpuðu 348 milljónum

Afkoma 365 miðla versnaði milli ára. Félagið á í hundruð milljóna króna skattadeilu við ríkisskattstjóra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

365 miðlar hf. töpuðu 348 milljónum króna á síðasta ári samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins en það hagnaðist um 17 milljónir króna árið 2016.

365 miðlar seldu fjölmiðla sína, að undanskildu Fréttablaðinu og Glamour, auk fjarskiptahluta félagsins til Sýnar, móðurfélags Vodafone á Íslands í desember á síðast ári. Félagið bókfærði 283 milljón króna söluhagnað vegna viðskiptanna. Greitt var fyrir hlutinn með yfirtöku skulda upp á 4,6 milljarða króna, 10,9% hlut í Sýn, sem um áramótin var 2,2 milljarða króna viðri og með um 1,5 milljörðum króna í reiðufé. 

Samkvæmt ársreikningnum nam rekstrartap áframhaldandi starfsemi, sem samanstendur að mestu leyti af Fréttablaðinu og Glamour, 146 milljónum króna í fyrra en tapið var 312 milljónir króna árið 2016. Rekstrartekjur af áframhaldandi starfsemi 365 miðla nam 2,5 milljörðum króna árið 2017 og lækkuðu um 85 milljónir króna á milli ára. Þá lækkuðu rekstrargjöld af áframhaldandi starfsemi úr 2,9 milljörðum króna í tæplega 2,7 milljarða króna. Greint var frá því í vikunni að til Kvika hafi verið fenginn til að kanna áhuga mögulegra kaupenda á Fréttablaðinu. 365 miðlar skuldbundu með sátt við Samkeppniseftirlitið til að selja annað hvort hlut sinn í Sýn eða Fréttablaðið á næstu átján mánuðum.

Tekjur af þeirri starfsemi sem seld var til Sýnar frá janúar til nóvember námu 8 milljörðum króna og rekstrarkostnaður ríflega 7 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir af hinni seldu starfsemi lækkaði úr 1,02 milljörðum króna í 954 milljónir króna milli ára en hafa ber í huga að afkoman fyrir árið 2016 nær til alls ársins en einungis fyrstu 11 mánaða ársins á árinu 2017.

Í árslok 2017 samanstóðu eignir 365 miðla af 2,1 milljarðs króna eignarhlutnum í Sýn, handbæru fé upp á 1,2 milljarða króna, viðskiptakröfum upp á 770 milljónir, kröfum á tengda aðila upp á 177 milljónir króna, rekstrarfjármunum upp á 99 milljónir króna og viðskiptavild upp á 857 milljónir króna. Eigið fé félagsins um áramótin nam 2,4 milljörðum króna og skuldir um 2,9 milljörðum króna.

Deila fyrir dómstólum við skattayfirvöld

Þá kemur fram að álagður tekjuskattur á 365 vegna eigna sem félagið seldi hafi numið 1,1 milljarði króna á árinu 2017. Félagið stendur í málarekstri fyrir dómstólum um hvort 365 miðlum beri að greiða viðbótartekjuskatt vegna meintra ófrádráttabærra vaxtagjalda og nýtingu á yfirfæranlegu tapi rekstrarárin 2009 til 2011. 

Málið snýst um kaup félagsins Rauðsól, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, á rúmlega 99,9% hlutafjár í 365 miðlum hf. í byrjun nóvember 2008. Félagið sem seldi hlutinn, sem fékk nafnið Íslensk afþreying, fór í þrot en í því félagi stóðu eftir milljarðaskuldir.

365 miðlar hafa talið að móðurfélag isamstæðunnar sé heimilt að nýta skattalegt tap sem myndaðist hjá Rauðsól ehf. fyrir sameininguna og vaxtagjöld af lánum Rauðsólar ehf. vegna kaupa og uppgreiðslu á lánum 365 miðla hf. til frádráttar frá skattgreiðslum hins sameinaða félags. Ríkisskattstjóri, yfirskattanefnd og nú síðast Héraðsdómur Reykjavíkur í nóvember 2017, hafa talið aðgerðin sé ekki heimil og hafa vísað til Toyota-málsins sem byggir á dómi Hæstaréttar nr, 555/2012. 365 miðlar eru ósammála túlkun skattayfirvalda og hafa áfrýjað málin.

Í ársreikningnum segir að samstæðan hafi ekkert gjaldfært í rekstrarreikningi vegna málsins en tapist dómsmálið megi áætla að heildaráhrif á eigið fé samstæðunnar verði um 584 milljónir króna vegna rekstraráranna 2009 til og með árinu 2015. Félagið greiddi 372 milljónir króna vegna málsins á árinu 2015 en færði það sem viðskiptakröfu í bókum sínum þar sem það telur að félagið eigi rétt á að fá fjárhæðina endurgreidda þar sem aðgerðir félagsins hafi verið í samræmi við lög.

„Ef endanleg niðurstaða dómstóla verður í samræmi við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur mun það hafa marktæk áhrif á eiginfjárstöðu samstæðunnar en ekki á lausafjárstöðu samstæðunnar þar sem úrskurðuð viðbótarálagning var greidd á árinu 2015,“ segir í ársreikningnum.

Þá krafði ríkisskattstjóri félagið um upplýsingar í árslok 2016 varðandi gjaldfærðan fjármagnskostnað vegna rekstraráranna 2012 til 2015 en hefur ekki úrskurðað vegna þess tímabils samkvæmt ársreikningnum.

Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, og tengdir aðilar eiga 365 miðla að mestu. Í ársreikningnum kemur fram að á árinu 2017 hafi 365 miðlar greitt 82 milljónir króna vegna launa, verktakagreiðslna, ráðgjafalauna og leigu til hluthafa og tengdra aðila en 74 milljónir króna árið 2016.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is