Viðræður standa yfir milli 365 miðla ehf. og IP-fjarskipta ehf. (Tal) um sameiningu félaganna undir merkjum 365. Viljayfirlýsing þess efnis hefur verið undirrituð, að því er fram kemur í tilkynningu frá félögunum. Sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og Póst- og fjarskiptastofnunar.

Verði af sameiningunni munu eigendur Tals, t.a.m. Auður I fagfjárfestasjóður, eignast hlut í 365 miðlum.

365 hefur á undanförnum misserum sýnt áhuga á því að koma inn á fjarskiptamarkaðinn af fullum krafti og hefur fyrirtækið meðal annars hafið sölu á nettenginum fyrir heimili, auk þess sem áformað er að hefja 4G farsímaþjónustu á komandi misserum.

Nýjungar sem ekki hafa sést áður

Í tilkynningunni er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni, forstjóra 365, að góður gangur sé í viðræðunum og fyrirtækið sjái mikil tækifæri í sameiningunni. Hann bendir á að snjalltæki gegni sífellt mikilvægara hlutverki í dreifingu sjónvarpsefnis og mikilvægt sé að 365 tileinki sér nýja tækni í þeim efnum.

Petrea L. Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Tals, tekur í sama streng og segir að í kjölfar sameiningarinnar verði boðið upp á nýjungar, sem ekki hafi áður sést á fjarskiptamarkaðnum.