Afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtækið  365 [ 365 ] stefnir enn að hlutafjáraukningu í haust, að sögn Ara Edwald, forstjóra félagsins. Tilkynnt var um hlutafjáraukninguna í vor og hljóðar hún upp á 1,5 milljarða króna að nafnverði.  Félagið tilkynnti í gær um að það hyggist fara af hlutabréfamarkaði.

„Við erum með heldur miklar skuldir fyrir þennan rekstur sem við erum með og höfum litið svo á að það þurfi að lækka þær með eiginfjáraukningu í félaginu,“ segir Ari í viðtali sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag.

Spurður hvort 365 muni selja frá sér eignir til þess að lækka skuldir, segir Ari að engar ákvarðanir hafi verið teknar um það. „Það er auðvitað ekkert útilokað hjá nokkru fyrirtæki í þeim efnum,“ segir hann.

„Þessi rekstur er í stöðugri þróun. Við erum búnir að taka hann mikið í gegn,“ segir Ari spurður hvort vænta megi breytinga á rekstrinum við afskráningu.

Gerir ráð fyrir að 95% hluthafa taki þátt í afskráningunni

Líklega segir það sína sögu um litla dreifingu á eignarhaldi 365 að Ari Edwald, forstjóri 365, segist gera ráð fyrir að nærri 95% hluthafa muni taka þátt í að afskrá félagið. Þegar hafa yfir 85% hluthafa skuldbundið sig til að taka þátt í afskráningunni.

Stærstu hluthafar 365 eru fjölskylda Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, stjórnaformanns Baugs Group, og Fons, félag í eigu Pálma Haraldssonar.

„Tillagan felur í sér 10% premíu miðað við þann dag sem ákvörðunin var tekin,“ segir Ari. Það er meðalgengi síðustu 30 daga.