Ari Edwald, forstjóri 365, segir að óvissa ríki enn um framhald viðræðna um samruna Árvakurs og Fréttablaðsins.

Viðskiptablaðið greindi frá því á þriðjudag að drög að samkomulagi lægju fyrir og gengið yrði frá samkomulagi fljótlega. Að sögn Ara er staða málsins óbreytt.

Fyrir liggur að 365 þurfa að standa skil á greiðslu um 1.450 milljóna króna vegna skuldabréfaflokks sem fellur í gjalddaga í nóvember. Ari segir að sá gjalddagi reki ekki eftir því að niðurstaða fáist í málið.

„Þessi skuldabréfaflokkur er ekki úrslitaatriði,“ sagði Ari.

Hann neitaði því að ástandið á fjármálamörkuðum síðustu daga væri ástæða þess að niðurstaða væri ekki fengin í málið.

Hann sagði að hins vegar myndi samruni Fréttablaðsins og Morgunblaðsins „klárlega hafa jákvæð áhrif á efnahag“ 365.

Samkomulagið miðast við að Fréttablaðið renni inn í Árvakur og að 365 fái í staðinn allt að 40% hlut í Árvakri.