365 miðlar vildu ekki fá Loga Bergmann til vinnu þegar hann hugðist mæta til vinnu hjá fyrirtækinu á mánudaginn og vinna út árs uppsagnarfrest hjá fyrirtækinu. RÚV greinir frá. Þá fengi Logi heldur ekki laun út uppsagnarfrestinn.

Logi réð sig nýverið til Árvakurs til að starfa á útvarpsstöðinni K100 og í Sjónvarpi Símans. 365 miðlar fengu Sýslumann í kjölfarið til að setja lögbann á þau störf fram til október 2018 þar sem í ráðningarsamningi Loga við 365 miðla væru ákvæði um að hann mætti ekki starfa hjá samkeppnisaðila í 12 mánuði.

Guðjón Ármannsson, lögmaður Loga, sagði í samtali við RÚV, að hann hefði fyrir hönd Loga tilkynnt að hann hygðist mæta til vinnu. Réttarstefna til staðfestingar lögbanninu hefur verið gefin út og málið verður þingfest á þriðjudag.