Heildarávöxtun á íslenskum fjármálamarkaði á síðasta ári, mæld með markaðsvísitölu Gamma, nam 3,7%, en allar vísitölur fyrirtækisins hækkuðu nema hlutabréfavísitalan. Á sama tíma nam verðbólgan 3,7% svo raunávöxtunin var engin.

Mest var hækkunin á íslenskum fjármálamarkaði 8,0% á verðtryggðum ríkisskuldabréfum, en vægi þeirra á markaði lækkaði á sama tíma og vægi fyrirtækjaskuldabréfa nálgast 19,1%, eftir hækkun úr 14,3%.

Óverðtryggði hluti vísitölu Gamma hækkaði hins vegar um 3,1%, meðan heildarvísitala ríkistryggðra skuldabréfa hækkaði um 6,4%. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 7,2%, þar af sértryggði hlutinn um 7,5%.

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði hins vegar um 3,3% á árinu 2018. Þetta er töluverð breyting frá fyrri árum, en hún hækkaði um 3,0% á árinu 2017, 0,1% árið 2016 og svo nærri helming, eða 49,9% árið 2015.

Ávöxtun allra annarra vísitalna Gamma var lakari árið 2018 en árið áður, en árið í fyrra einkenndist af miklu flökti, með 10% hækkun í lok apríl en lækkunin nam 5,0% þann 30. október. Besta ávöxtunin á árinu var í bréfum Haga, en hækkunin á bréfum félagsins nam 33%, meðan Sýn og Icelandair lækkuðu mest, eða 38% og 34% í virði

Ríkisskuldabréf með lengsta líftímann skiluðu aftur á móti bestu ávöxtuninni, eða allt að 9,9%. Nánar má lesa um yfirlit vísitalna Gamma fyrir síðasta ár á vef Gamma Capital Management .