Ríkisendurskoðun hefur framkvæmt úttekt á svokallaðri hlutastarfaleið sem eru atvinnuleysisbætur greiddar launamönnum vegna minnkaðs starfshlutfalls á grundvelli laga nr. 23/2020. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Niðurstaða úttektarinnar leiðir í ljós að alls hafa rúmlega 37 þúsund manns fengið atvinnuleysisbætur samkvæmt þessu úrræði sem starfa hjá 6.436 vinnuveitendum. Heildarkostnaður ríkissjóðs vegna þessa stefnir í að verða nálægt 31 milljarðar króna á árinu 2020. Jafnframt er ljóst að almennt aukið atvinnuleysi og hlutastarfaleiðin geri það að verkum að útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs gætu orðið allt að 84 milljarðar króna á árinu. Er það 56 milljörðum króna  hærra en áætlað var í upphafi ársins 2020.

Ríkisendurskoðun bendir á að einstaklega erfiðar aðstæður sem vart eiga sér hliðstæðu hafi kallað á skjótar aðgerðir stjórnvalda til að styðja við launafólk í landinu og vinnuveitendur þeirra.