*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 30. ágúst 2019 09:07

373 milljóna hagnaður Eimskips

Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi nam 2,7 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 373 milljónum króna.

Ritstjórn
Vilhelm Már Þorsteinsson tók við forstjórastarfinu hjá Eimskip í upphafi árs 2019.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eimskips á öðrum ársfjórðungi nam 2,7 milljónum evra, eða sem nemur tæplega 373 milljónum króna, samanborið við 4,6 milljónir evra á sama ársfjórðungi 2018. Tekjur á ársfjórðungnum námu 167,5 milljónum evra og lækkuðu um 5,1 milljónir eða 3,0% frá sama ársfjórðungi 2018. Magn í áætlunarsiglingum minnkaði um 4,8% vegna minni innflutnings til Íslands og minni útflutnings í lok fjórðungsins. Magn í flutningsmiðlun minnkaði um 14,0% en hagnaðurinn af flutningsmiðlun var sambærilegur og á sama tímabili í fyrra vegna aukinnar framlegðar. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Launakostnaður lækkaði á milli tímabila um 5,2% og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1,2% án áhrifa IFRS 16. EBITDA nam 18,5 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi 2019 eða 13,2 milljónum án áhrifa IFRS 16 samanborið við 14,9 milljónir á sama ársfjórðungi síðasta árs sem er lækkun um 11,8%. EBITDA í ársfjórðungnum var örlítið undir væntingum sem má helst rekja til minna magns í gámaflutningum. Þá jókst handbært fé frá rekstri í lok tímabilsins (án áhrifa IFRS 16) verulega og nam 17,4 milljónum evra samanborið við 8,0 milljónir í lok sama ársfjórðungs 2018.

Í tilkynningunni er einnig farið yfir helstu atriði í afkomu Eimskips fyrstu sex mánuði ársins 2019 og má sjá þau hér að neðan:

 • Tekjur námu 331,5 milljónum evra og hækkuðu um 3,3 milljónir eða 1,0% frá sama tímabili 2018
 • EBITDA nam 34,0 milljónum evra eða 23,8 milljónum án áhrifa IFRS 16 samanborið við 22,2 milljónir fyrir sama tímabil á síðasta árs sem er aukning um 7,2%
 • Hagnaður tímabilsins nam 0,1 milljón evra samanborið við 3,0 milljónir evra fyrir sama tímabil 2018.
 • Neikvæð einskiptis skattaleg áhrif að fjárhæð 3,4 milljónir evra hafa áhrif á afkomu tímabilsins. Án þessa einskiptis liðar væri hagnaður 3,5 milljónir evra.
 • Fjárfestingar tímabilsins námu 21,7 milljón evra samanborið við 24,2 milljón evra fyrir sama tímabil 2018. Þar af voru nýfjárfestingar 14,7 milljónir að stærstum hluta vegna nýsmíði á tveimur skipum, kaup á nýjum krana og framkvæmdum á hafnarsvæðinu honum tengdum.
 • Handbært fé frá rekstri í lok tímabilsins (án áhrifa IFRS 16) jókst verulega og nam 28,5 milljónum evra samanborið við 10,0 milljónir í lok sama tímabils 2018.
 • Eigið fé nam 232,9 milljónum evra í lok tímabilsins og eiginfjárhlutfallið nam 44,2%. Eiginfjárhlutfallið var 47,3% án áhrifa IFRS 16 en til samanburðar var eiginfjárhlutfallið 49,1% í árslok 2018.
 • Endurkaupaáætlun var virkjuð á öðrum ársfjórðungi og keypti félagið hlutabréf að fjárhæð 1,9 milljón evra á markaðsvirði.
 • Arður að fjárhæð 4,7 milljón evra var greiddur á öðrum ársfjórðungi.
 • Skuldsetningarhlutfall var 2,80 í lok annars ársfjórðungs 2019 en án áhrifa IFRS 16 var hlutfallið 2,68 samanborið við 2,80 í lok árs 2018 sem er jákvæð þróun á milli tímabila.
 • Afkomuspá Eimskips fyrir árið 2019 er EBITDA á bilinu 51 til 57 milljónir evra.

Afkoman í takti við væntingar

„Afkoma Eimskips á fyrstu sex mánuðum ársins var í takti við væntingar. Tekjur og EBITDA á öðrum ársfjórðungi voru lítillega fyrir undir væntingum sem skýrist að mestu leyti af minna magni í gámaflutningum til og frá Íslandi og Færeyjum.

Okkar fjölbreytta alþjóðlega starfsemi skilaði betri afkomu á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra. Sérstaklega er gaman að nefna að starfsemin okkar í Noregi hélt áfram að bæta afkomu sína í kjölfar ýmissa hagræðingaraðgerða þrátt fyrir minna magn í frystiflutningum en félagið rekur nú tveimur færri skip í Noregi miðað við sama tímabil í fyrra. Flutningsmagn í Trans-Atlantic flutningum hélt áfram að aukast sem hafði jákvæð áhrif á starfsemi okkar í Norður-Ameríku. Útflutningsmagn í Færeyjum minnkaði á ársfjórðungnum vegna minni veiða á botnfiski og minnkunar á frystum uppsjávarafurðum. Magnið í flutningsmiðlun á alþjóðamörkuðum minnkaði á Q2 samanborið við sama tímabil í fyrra en það hafði ekki áhrif á afkomu vegna betri framlegðar.

Í kjölfar góðrar afkomu í gámasiglingakerfinu á fyrri ársfjórðungi 2019, var afkoman á öðrum ársfjórðungi lituð af töluvert minna magni í innflutningi vegna kólnunar í íslenska hagkerfinu. Útflutningur var sterkur fyrstu fimm mánuði ársins en magnið minnkaði töluvert í júní og júlí en hefur verið að aukast aftur í síðari hluta ágúst. Þessa minnkun má rekja til seinkaðra áhrifa af loðnubresti og því að sjávarútvegsfyrirtæki sneru sér að veiðum á öðrum tegundum þar til kvóta var náð fyrr en á sama tíma í fyrra. Að auki var magn af makríl frá Grænlandi, sem landað hefur verið á Íslandi fyrir útflutning, umtalsvert minna en á sama ársfjórðungi í fyrra. Innanlandsstarfsemin t.d. innanlandsflutningar og vöruhúsastarfsemi varð einnig fyrir neikvæðum áhrifum af lægra magni á Q2.

Undanfarið höfum við verið að endurskoða gámasiglingakerfið okkar með tilliti til lægra flutningsmagns með það að markmiði að lækka fastan rekstrarkostnað, tryggja áfram hátt þjónustustig til viðskiptavina og undirbúa jarðveginn fyrir samstarfið við Royal Arctic Line. Markmiðið er að kynna aðlagað siglingakerfi síðar á þessu ári, vinnan gengur vel og við erum viss um að við munum áfram bjóða upp á besta siglingakerfið til og frá Íslandi og Færeyjum. Við eigum von á nýju skipunum, sem eru í smíðum í Kína, nokkrum vikum síðar á fjórða ársfjórðungi en áætlað var og að samstarfið við Royal Arctic Line hefjist á fyrsta ársfjórðungi 2020.

Síðustu mánuði höfum við unnið að ýmsum verkefnum sem miða að því að hagræða í starfseminni okkar, auka arðsemi og framleiðni. Samþættingarverkefnum tengdum TVG-Zimsen lauk á fjórðungnum og við erum farin að sjá árangurinn af þeim nú á þriðja ársfjórðungi. Ég er einnig ánægður að sjá að þær hagræðingaraðgerðir sem við fórum í á fyrsta ársfjórðungi í stoðeiningum byrjuðu að skila sér í lægri kostnaði á öðrum ársfjórðungi.

Stjórnendur Eimskips leggja mikla áherslu á gott sjóðstreymi og það var ánægjulegt að sjá að sjóðstreymi frá rekstri jókst töluvert á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við saman tímabil í fyrra. Við vinnum nú að hugmyndum að framtíðar fjármagnsskipan félagsins ásamt þriggja ára áætlun fyrir viðhaldsfjárfestingar sem við vonumst til að kynna síðar á þessu ári.

Tekin hefur verið ákvörðun um að skoða sölu á Sæferðum sem er dótturfélag Eimskips og starfar í sjótengdri ferðaþjónustu. Vonumst við til að fá niðurstöðu í það á næstu mánuðum.

Stjórn Eimskips hefur samþykkt að hefja vinnu við að sameina höfuðstöðvar Eimskips í skrifstofurými félagsins í Vöruhótelinu og taka upp verkefnamiðað vinnuumhverfi. Í tengslum við þetta verkefni væntum við þess að minnka skrifstofurými Eimskips við Sundahöfn um 50% sem mun skila jákvæðum fjárhagslegum ábata. Þetta er í takti við þá stefnu stjórnenda að auka arðsemi af grunnrekstri félagsins og ég hlakka til þess að geta boðið starfsmönnum okkar uppá nútímalegra vinnuumhverfi þar sem samvinna mun aukast, samskiptalínur styttast sem er félaginu, viðskiptavinum og starfsmönnum til hagsbóta," er haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, í tilkynningunni.