Aurora Acquisition Corp, fjárfestingarfélag sem Björgólfur Thor Björgólfsson leiðir, hefur lokið frumútboði 22 milljóna hluta, á genginu 10 dollarar á hlut. Þá fylgir hverjum hlut fjórðungs kaupréttur á hlut á 11,5 dollara. Bréfin hafa verið skráð á Nasdaq Capital Market undir merkinu AURCU.

Samhliða frumútboðinu fór fram einkasala á 3,5 milljónum hluta til félags Björgólfs Thors, Novator Capital, og lykilstjórnenda þess, á genginu 10 dollarar á hlut, en þeir fengu jafnframt í sinn hlut kauprétti á tæplega 4,3 milljónum hluta á genginu 11,5 dollarar á hlut.

Frumútboðið og einkasalan til Novator og tengdra aðila, að teknu tilliti til kauprétta, nam því alls tæplega 323 milljónum dollara eða sem nemur ríflega 37,5 milljörðum íslenskra króna.

Viðskiptablaðið sagði frá því á dögunum að skráning félagsins stæði til, en þá hafði verið lagt upp með að safna um 235 milljónum dollara, eða um 30 milljörðum íslenskra króna.

Fjárfestingarfélagið er svokallað „blank check" félag sem mun leggja áherslu á fjárfestingar í tækni- og fjölmiðlafyrirtækjum í Evrópu, Mið-Austurlöndum og Afríku.