Bobby Fischer
Bobby Fischer
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í tilefni 50 ára afmælis Mannvits var gefin út vegleg bók, sem ber heitið „Framfarir í 50 ár“, þar sem saga fyrirtækisins er rakin í máli og myndum. Ýmsir fróðleiksmolar eru í bókinni sem er skrifuð af Atla Rúnari Halldórssyni. Í henni kemur meðal annars fram að Rafhönnun, einn af forverum Mannvits, hafi átt sinn þátt í að fullnægja þörfum sérvitringsins og skáksnillingsins Bobby Fischer í „einvígi aldarinnar“ sem var haldið í Laugardalshöll sumarið 1972.

„Fyrirtækið annaðist lýsingu á keppnisstað sem í sjálfu sér átti að vera tiltölulega auðleyst mál,“ segir í bókinni. „Fischer sá hins vegar um að gera verkefnið flókið og umfangsmikið. Hann vildi að skákborðið á sviðinu yrði með öllu skuggalaust og ekkert rafmagnssuð heyrðist á meðan þeir Boris Spasskí sætu að tafli. Nú voru góð ráð dýr og niðurstaðan varð sú að Rafhönnun lét búa til lampa sem var mun stærri en dæmi voru um í veröldinni, 38 fermetrar! Lampanum var komið fyrir í 280 sentímetra hæð yfir sviðinu. Nokkra sólarhringa tók að sannfæra bandaríska stórmeistarann um að þetta dygði til að lýsa skákborðið sómasamlega.

Þegar öllum kröfum hafði verið fullnægt, þar á meðal um lýsingu og annað, var loks hægt að setjast að tafli.“

Umfjöllunin um einvígið er úr ítarlegu viðtali við Sigurð Arnalds, fyrrverandi stjórnarformann verkfræðistofunnar Mannvits, í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .