Skiptum á félaginu Gráfell ehf. er lokið en lýstar kröfur í búið námu rúmlega 3,85 milljörðum króna. Félagið var í eigu Látra ehf., sem aftur var í eigu Ingimundar hf., útgerðarfélags frá Reykjavík. Gráfell ehf. hélt utan um eign á svokölluðu Setbergslandi í Garðabæ þar sem til stóð að skipuleggja byggð.

Gengislán hvíldu á félaginu en skuldir þess námu 8,8 milljörðum í lok árs 2009 og 5,2 milljörðum í lok árs 2010 eftir að lánin höfðu verið leiðrétt. Engar eignir fundust í þrotabúinu en Landsbankinn sem veðhafi lánsins leysti það til sín áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Ármann Ármannsson, eigandi Ingimundar hf., vildi ekki tjá sig um málið.