Um 3,8 milljarða króna halli var hjá A-hluta Reykjavíkurborgar á síðasta ári, samanborið við 5,8 milljarða halla árið áður. Afkoma A-hlutans er engu að síður 8,1 milljarði betri en áætlun borgarinnar gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta borgarinnar var hins vegar jákvæð um 23,4 milljarða króna, sem skýrist einkum af matsbreytingum Félagsbústaða og álverðstengdum raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur. Ársreikningur Reykjavíkurborgar var birtur í dag.

Í tilkynningu borgarinnar segir að betri afkoma en áætlanir gerðu ráð fyrir skýrist einkum af hærri staðgreiðslu útsvars og betri ávöxtunar eigna lífeyrissjóðs LsRb. Á móti kom þó aukinn launakostnaður sem borgin rekur að hluta til til Covid aðgerða í leikskólum, grunnskólum og velferðarþjónustu, innleiðingar á betri vinnutíma auk stuðnings- og stoðþjónustu.

Laun og launatengd gjöld hjá A-hlutanum námu 85,9 milljörðum króna á síðasta ári sem er 9,5 milljarða eða um 12,5% frá árinu 2020. Laun og launatengd gjöld voru 4,8 milljörðum yfir fjárheimildum.

Rekstrartekjur A-hluta voru 7,7 milljörðum yfir áætlun en útsvarstekjur voru 6,3 milljörðum betri en áætlun gerði ráð fyrir. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum.

Heildareignir A-hluta samkvæmt efnahagsreikningi námu í árslok samtals 236,5 milljörðum og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 144,6 milljörðum. Eigið fé nam 91,9 milljörðum.

Félagsbústaðir og Orkuveitan arðbær

Rekstrarniðurstaða A- og B- hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 23,4 milljarða króna á árinu 2021 en áætlanir höfðu gert fáð fyrir neikvæðri niðurstöðu um 3,3 milljarða.

Sjá einnig: Félagsbústaðir hagnast um 18,5 milljarða

Niðurstaðan skýrist einkum af matsbreytingu fjárfestingaeigna hjá Félagsbústöðum, sem var 19,4 milljarðar króna umfram áætlun. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá hefur ESA, eftirlitsstofnun EFTA, krafið innviðaráðuneytið um rökstuðning á notkun hugtaksins „fjárfestingareigna“ hjá Félagsbústöðum í reikningsskilum borgarinnar. Þá námu gangvirðisbreytingar innbyggðra afleiða í raforkusölusamningum Orkuveitu Reykjavíkur 6,6 milljörðum króna á árinu

Samtals námu rekstrartekjur A- og B-hluta 202,6 milljörðum króna á árinu eða 7,4 milljörðum yfir áætlun.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:

„Niðurstaðan er mun sterkari en áætlanir gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir mikinn auka kostnað vegna Covid, sérstaklega í skólum og velferðarþjónustunni. Þar sýndi starfsfólk og stjórnendur ótrúlega útsjónarsemi og seiglu og ég er sérstaklega stoltur af því hvernig þessi tvö ár gengu í þjónustu við borgarbúa. Við brugðumst einnig við heimsfaraldrinum með því að auka fjárfestingar í stað þess að draga saman seglin. Þar erum við að fjárfesta í innviðum hverfanna okkar og lífsgæðum fyrir borgarbúa, með grænum áherslum í samræmi við Græna planið. Þessi ársreikningur staðfestir því ábyrga fjármálastjórn, öflug og rétt viðbrögð við erfiðum aðstæðum, góða frammistöðu starfsfólks og stjórnenda, og sterka stöðu borgarsjóðs og samstæðunnar í heild. Það er gott veganesti inn í framtíðina og fyrir þá miklu uppbyggingu sem fram undan er.”