Gjaldþrot félagsins Ehald ehf., sem áður hét Eik Properties, hljóðar upp á fjórða milljarða króna. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í janúar á þessu ári en skiptum á því er lokið. Eftir því sem fram kemur í Lögbirtingablaðinu námu lýstar kröfur í þrotabúið rúmlega 3,8 milljörðum króna. Um 228 milljónir króna fengust upp í veðtryggðarkröfur en um 353 milljónir í almennar kröfur. Tæplega 10% fengust því greidd upp í almennar kröfur.

Eik Properties var stofnað árið 2007 en árið 2008 voru félögin Eik fasteignafélag hf. og Fasteignafélag Íslands ehf. sett undir hatt Eikar Properties. Við þetta var Eik Properties orðið annað stærsta fasteignafélag landsins á eftir Landic Properties og var þá sagt 54 milljarða virði.