Þó upphæðin hafi lækkað um 233 milljónir milli ára greiddu fyrirtæki og einstaklingar samtals rúm 3,8 milljarða króna í útvarpsgjald á árinu. Gjaldið er ætlað til rekstrar Ríkisútvarpsins. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Greiddu alls 195.316 einstaklingar gjaldið í ár sem er fjölgun um 3,2% milli ára, en þeir sem eru fæddir 1946 og fyrr þurfa ekki að greiða gjaldið, né heldur unglingar.

Skilar það rúmum 3,2 milljörðum króna en gjaldið á hvern einstakling er nú 16.400 krónur, en það hefur farið stiglækkandi frá árinu 2014 þegar það var 19.400 krónur.

Gjaldið lagðist einnig á 37.331 lögaðila í landinu, sem er 1.336, eða 3,7% fleiri en í fyrra. Skilaði það því 612 milljónum króna af skattskyldum fyrirtækjum, en fyrirtæki í gjaldþrotameðferð eru undanskilin gjaldinu.