Verkefni um útrás og markaðssókn íslenskrar tónlistar og Kammersveit Reykjavíkur fengu hæstu styrki sem veittir voru úr Tónlistarsjóði en tilkynnt var fyrr í dag um úthlutun fyrir fyrri hluta ársins, alls 5 milljónir króna hvor aðili.

Heildarfjárhæð styrkja nemur rúmlega 38 milljónum króna en heildarfjárhæð umsókna var um hundrað milljónum hærri, eða tæplega 138 milljónir króna.

126 umsóknir en 69 styrkir

Þorgerður K. Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, veitti styrkina í dag að tillögu tónlistarráðs. Tónlistarsjóði bárust 126 umsóknir frá 116 aðilum, en veittir voru 69 styrkir.

Þetta er í áttunda sinn sem auglýst var eftir umsóknum, og verður auglýst eftir fleiri umsóknum síðar á árinu.

Á meðal annarra verkefna sem fengu háa styrki má nefna tónlistarhópinn Caput sem fær 4,5 milljónir króna, Stórsveit Reykjavíkur sem fær 3 milljónir króna, Myrkir músíkdagar sem fá 3 milljónir króna, Tónleikaröð FÍT á landsbyggðinni sem fær 1,5 milljónir kro´na, Listvinafélag Hallgrímskirkju sem fær 1 milljón króna, Hátíð norrænna hornaleikara sem fær 1 milljón króna og íslensku tónlistarverðlaunin, sem fá 800 þúsund krónur.