„Við getum átt von á að þetta liggi fyrir á mánudag eða þriðjudag,“ segir Adolf Guðmundsson, formaður stjórnar Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) um ráðningu næsta framkvæmdastjóra sambandsins. Frestur til að sækja um stöðuna rann út á miðnætti á mánudag, þ.e. 3. júní. Umsækjendur voru 38 talsins.

Framkvæmdaráð LÍÚ fór yfir umsóknirnar í morgun og mun gera það aftur. Adolf vildi í samtali við vb.is ekki segja til um hversu margir umsækjenda séu skoðaðir sérstaklega og komi til álita sem næsti framkvæmdastjóri LÍÚ.

Friðrik J. Arngrímsson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra sambandsins síðastliðin þrettán og hálft ár.

„Þetta er allt mjög hæft fólk,“ segir Adolf um umsækjendurna.