Verðbólga í Bretlandi var 3,8% í júní, en var 3,3% í maí.

Verðbólgumarkmið breskra yfirvalda er 2% og er talið ólíklegt að vextir lækki á næstunni í Bretlandi, samkvæmt frétt BBC. Englandsbanki hefur áður sagt að verðbólga gæti farið yfir 4% á þessu ári í Bretlandi.

Matur og áfengislausir drykkir voru þeir þættir sem mestu breyttu um verðbólgu í mánuðinum, en verð þeirra var 2,1% hærra en í maí og 9,5% hærra en í júní 2007. Einnig hefur hækkandi eldsneytisverð mikið að segja.

Ljós í myrkrinu fyrir breska neytendur var þó að verð á fötum og skóm lækkaði. Útsölur spila þar inn í.

Fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, kallar eftir því að launahækkanir verði hóflegar svo ekki komist af stað launaskrið. Allir verða að leggja sitt af mörkum hvað það varðar, segir hann.