Atvinnuleysistryggingasjóður mun leggja tæpar 280 milljónir króna til sumarstarfa fyrir námsmenn gegn 100 milljón króna mótframlagi ríkissjóðs. Þetta tilkynnti Runólfur Ágústsson, formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, á blaðamannafundi sem Stúdentaráð Háskóla Íslands hélt í dag. Gert er ráð fyrir að hægt verði að skapa um 900 sumarstörf með þessu móti.

Við sama tækifæri var Arion banka veitt heiðursviðurkenning fyrir að hafa ráðið flesta stúdenta til starfa árið 2011. Viðurkenningin er hluti sameiginlegs átaks Stúdentaráðs og Samtaka atvinnulífsins en SA hvöttu félagsmenn sína til að ráða til sín stúdenta, sérstaklega yfir sumartímann. Arion banki réði alls 158 stúdenta, 131 yfir sumar og 27 stúdenta sem voru í hlutastörfum yfir veturinn. Þá var á fundinum tilkynnt um áframhaldandi samstarf Samtaka atvinnulífsins og Stúdentaráðs á þessum grundvelli.

Félagsstofnun stúdenta tekur einnig þátt í átaki um sumarstörf fyrir stúdenta og var í dag vakin athygli á vefsvæði stofnunarinnar en þar geta fyrirtæki auglýst eftir starfsfólki sér að kostnaðarlausu til 15. maí næstkomandi.

Stúdentaráð og Samtök atvinnulífsins veita viðurkenningu.
Stúdentaráð og Samtök atvinnulífsins veita viðurkenningu.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sara Sigurðardóttir formaður Stúdentaráðs, Davíð Ingi Magnússon hagsmunafulltrúi Stúdentaráðs, Jónas Hvannberg starfsmannastjóri Arion banka, Vigfús Rúnarsson formaður Fjármála- og atvinnulífsnefndar Stúdentaráðs, Hörður Vilberg verkefnastjóri Samtaka atvinnulífsins og Runólfur Ágústson formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingarsjóðs.