Auk þess að halda utan um veltutölur á fasteignamarkaði heldur Þjóðskrá Íslands einnig utan um fjölda samninga. Þegar þær tölur eru skoðaðar kemur í ljós að á fyrstu 37 vikum ársins voru gerðir ríflega 4.700 kaupsamningar. Allt stefnir því í að fjöldi kaupsamninga á þessu ári verði mjög svipaðir og í fyrra. Í fyrra voru gerðir tæplega 6.400 samningar og nú stefnir í að fjöldinn verði um 6.600, sem er rétt yfir meðaltali síðustu 14 ára. Frá árinu 2002 hafa að meðaltali verið gerðir ríflega 6.400 samningar á ári.

Frá árinu 2002 til og með árinu 2007 var fjöldi samninga á hverju ári frá 7.300 til 10.100.  Þó að veltan hafi verið mest árið 2007 voru flestir kaupsamningar gerðir árið 2004. Það á sér líklega þær skýringar að það ár fóru bankar að bjóða upp á fasteignaveðlán og tiltölulega  auðvelt var fyrir hvern sem er að fá 100% fasteignalán.

Á fyrstu 37 vikum þessa árs nemur meðalupphæð á hvern samning 38,5 milljónum, sem er aðeins meira en í fyrra þegar hver samningur var upp á 37,1 milljón króna að meðaltali á verðlagi ársins 2015. Á síðustu 14 árum er meðalupphæð á hvern samning37,3 milljónir og því má segja að að þessu leyti sé fasteignamarkaðurinn í ágætis jafnvægi í dag. Til samanburðar þá var meðalupphæð á hvern samning yfir 40 milljónir króna á árunum 2005 til og með árinu 2009. Toppnum náði markaðurinn árið 2007 þegar hver samningur hljóðaði að meðaltali upp á 48,3 milljónir króna að núvirði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .