Samkvæmt upplýsingum frá ársreikningaskrá hafa 39 félög nýtt sér ákvæði laganna og sótt um heimild ársreikningaskrár til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli vegna reikningsársins 2008. Í yfirgnæfandi tilvika er hinn erlendi gjaldmiðill sem sótt er um evra. Á vegum ársreikningaskrár er nú unnið að því að yfirfara og afgreiða umræddar umsóknir.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins kemur fram að með lögum sem samþykkt voru á Alþingi 18. desember sl. var opnað fyrir það að félög gætu, fyrir 30. desember 2008, sótt um heimild ársreikningaskrár til færslu bókhalds og samningar ársreiknings í erlendum gjaldmiðli, annars vegar vegna reikningsárs sem hófst 1. janúar 2008 eða síðar á því ári og hins vegar vegna reikningsársins sem hófst 1. janúar 2009. Með öðrum orðum var ársreikningaskrá annars vegar heimilað að samþykkja afturvirkt slíkar beiðnir félaga fyrir reikningsárið 2008 og hins vegar var framlengdur umsóknarfrestur fyrir reikningsárið 2009.

Þessi tímabundna og afturvirka breyting var gerð í ljósi þess ástands sem ríkir í efnahagslífi landsins og þeirra breytinga sem áttu sér stað á gengi íslensku krónunnar á árinu 2008 en talið var að sú þróun kynni í sumum tilfellum að vekja upp spurningar um hvaða starfrækslugjaldmiðill, í skilningi laga um ársreikninga, gefi í raun rétta mynd af afkomu og efnahag félaga á reikningsárinu 2008. Var breytingin hluti af aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar til að bregðast við vanda fyrirtækja í landinu. Viðkomandi fyrirtæki þurfa eftir sem áður að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í lögum um ársreikninga fyrir veitingu heimildar ársreikningaskrár.

Samkvæmt breytingalögunum bar að leggja inn slíka umsókn hjá ársreikningaskrá fyrir 30. desember sl.