Stjórnstöð ferðamála óskaði nýverið eftir að Deloitte myndi framkvæma fjárhagslega greiningu á beinum áhrifum ferðamanna á tekjur og gjöld bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga. Greiningin var unnin af sérfræðingum Deloitte á Íslandi og í Danmörku og tekur mið af alþjóðlegri aðferðafræði. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Í greiningunni kom meðal annarsf fram að bein áhrif ferðamanna á tekjur hins opinbera námu tæpum 45 milljörðum króna á árinu 2015 og á kostnað námu bein áhrif ferðamanna rúmum 5 milljörðum króna á árinu 2015. Bein nettó áhrif ferðamanna til hins opinbera voru því jákvæð um 39 milljarða króna árið 2015, eða 28 milljarða króna fyrir ríkissjóð og 11 milljarða króna fyrir sveitarfélög.

„Greiningin tekur ekki til óbeinna og afleiddra áhrifa vegna ferðamanna á opinbera tekju- og kostnaðarliði. Þar undir eru aðrir hlutar virðiskeðjunnar og meðal annars liðir á borð við rekstrarkostnað grunnþjónustu, innviðafjárfestingar og áhrif hærra atvinnustigs,“ segir í fréttatilkynningunni.

Fyrsta sinn sem að bein áhrif er mæld

„Undanfarin ár hefur töluvert verið rætt um framlag ferðaþjónustunnar til samfélagsins og undirliggjandi fjárfestingaþörf í innviðaubyggingu vegna aukningar í fjölda ferðamanna. Það hefur hins vegar skort áreiðanleg gögn í þeim efnum, eitthvað sem Stjórnstöðin hefur lagt mikið kapp á að færa til betri vegar. Þessi greining Deloitte er mikilvægur liður í því og meðal annars hægt að byggja ákvarðanatöku um framtíðar fjárfestingar meira á rekstrarlegum forsendum en hingað til hefur verið hægt.  Ætla má að opinber afkoma hafi verið meira á árinu 2016 þegar stærstur hluti ferðaþjónustunnar var tekinn inn í virðisaukaskattskerfið, auk þess sem ferðamönnum fjölgaði um 39% frá fyrra ári. Þá á eftir að greina og taka tillit til óbeinu áhrifana.“ segir Óskar Jósefsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála.

„Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi þar sem bein áhrif heillar atvinnugreinar eru mæld með þessum hætti og við hæfi að ferðaþjónustan ríði þar á vaðið, sem sú atvinnugrein sem vaxið hefur hraðast undanfarin ár. Greiningar sem þessar eru ávallt háðar ákveðnum takmörkunum. Þess vegna var mikið kapp lagt á að greiningin væri unnin af innlendum og erlendum sérfræðingum Deloitte, sem hafa reynslu af sambærilegum verkefnum. Eins var mið tekið af aðferðafræði sem þekkist erlendis, en með því að greina einnig óbeinu áhrifin hér á landi er til dæmis unnt að bera saman heildaráhrif ferðaþjónustunnar hér við Danmörku.“ segir Björn Ingi Victorsson, eigandi hjá Deloitte á Íslandi.