Á þriðja ársfjórðungi þessa árs var tekjuafkoman hins opinbera lakari en nokkru sinni frá því Hagstofan hóf skýrslugerð af þessu tagi í ársbyrjun 2004.

Nam tekjuhalli hins opinbera á þessum ársfjórðungi 15 milljörðum króna samanborið við um 17 milljarða króna tekjuafgang á sama tíma 2007.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar en út eru komin Hagtíðindi í efnisflokknum þjóðhagsreikningar um fjármál hins opinbera á 3. ársfjórðungi 2008.

Þá kemur fram að sem hlutfall af landsframleiðslu var tekjuhallinn 1,1% og sem hlutfall af tekjum hins opinbera 9,7%.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins varð tekjuafkoma hins opinbera neikvæð um 2,2 milljarða króna, sem samsvarar 0,2% af landsframleiðslu, en á sama tíma 2007 var tekjuafkoman hins vegar jákvæð um rúmlega 51 milljarð króna, eða 4% af landsframleiðslu.

Tekjuafkoma ríkissjóðs og almannatrygginga var neikvæð um rúmlega 11 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi 2008 samanborið við um 16 milljarða króna jákvæða afkomu árið áður.

Á fyrstu 9 mánuðum ársins var tekjuafkoma þessara aðila jákvæð um 3 milljarða króna samanborið við rúmlega 44 milljarða króna á sama tímabili 2007.

Tekjuafkoma sveitafélaga einnig neikvæð

Á vef Hagstofu kemur einnig fram að tekjuafkoma sveitarfélaganna var einnig neikvæð á 3. ársfjórðungi 2008 eða um 3,9 milljarða króna og því mun lakari en á sama tíma 2007 er hún var jákvæð um 1,4 milljarð króna.

Fyrstu 9 mánuði 2008 mældist tekjuafkoma sveitarfélaganna neikvæð um 5,2 milljarða króna samanborið við jákvæða afkomu upp á 6,1 milljarð króna á sama tímabili 2007.