Síminn hefur lokið við uppsetningu á 3G sendum í stærstu þéttbýliskjörnum Suðurlands. Þeir staðir sem nú ná 3G þjónustu Símans á þessu landsvæði eru Vestmannaeyjar, Hveragerði, Selfoss, Eyrarbakki, Stokkseyri, Hvolsvöllur og Þorlákshöfn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Símanum.

Þá kemur einnig fram að auk þess næst 3G samband víðsvegar á sumarbústaðasvæðinu í Grímsnesi, Landssveit og Biskupstungum. Þetta þýðir meðal annars að viðskiptavinir með Netlykil Símans ná nú háhraðanetsambandi á þessum stöðum.

Í ágúst síðastliðnum opnaði Síminn fyrir aðgang að 3G farsímaþjónustu, fyrst íslenskra fjarskiptafyrirtækja. Í fyrstu náði þjónustan yfir allt höfuðborgarsvæðið og flugstöð Leifs Eiríkssonar en fljótlega bættist Akureyri við.

Í dag hefur Síminn sett upp 15 nýja 3G senda á Borgarfjarðarsvæðinu og á Suðurlandi.

Á Borgarfjarðasvæðinu er komið samband í Borgarnesi og einnig á sumarbústaðasvæði í Skorradal og Svínadal.

Á Suðurlandi eru Vestmannaeyjar komnar inn ásamt Hvolsvelli, Hveragerði, Selfossi, Stokkseyri og Þorlákshöfn ásamt því að samband er komið víðsvegar á sumarbústaðasvæðunum í Grímsnesi, í Landssveit og í Biskupstungum.

Nýlega var einnig hafin vinna við uppsetningu á Reykjanesi og fyrir mitt sumar munu fleiri þéttbýliskjarnar bætast við á landsbyggðinni eins og Akranes, Stykkishólmur, Ísafjörður, Egilsstaðir og Reyðarfjöður. Gera áætlanir Símans ráð fyrir að á þessu ári muni þjónustan verða aðgengileg á yfir 20 þéttbýlisstöðum víðsvegar um landið, samkvæmt tilkynningunni.