Eigendur Refresco, eins stærsta drykkjarvöruframleiðanda Evrópu, og alþjóðlega fjárfestingafélagið 3i hafa gert samkomulag um að 3i kaupi nýtt hlutafé í Refresco, sem nemur 20% af heildarhlutafé Refresco. Verðmæti fjárfestingarinnar nemur 84 milljónum evra, um 14,5 milljörðum íslenskra króna, sem verður varið í að styðja við frekari vöxt Refresco. Núverandi hluthafar, hópur íslenskra fjárfesta undir forystu Stoða og stjórnendur Refresco, verða áfram meirihlutaeigendur og styðja innkomu 3i segir í tilkynningu.

Refresco er nú stærsti framleiðandi Evrópu á sérmerktum (“private-label”) drykkjarvörum, gosdrykkjum og ávaxtasöfum, með starfsemi í 19 verksmiðjum í 8 Evrópulöndum. Vaxtarstefna Refresco miðar að því að styrkja enn frekar leiðandi stöðu fyrirtækisins á Evrópumarkaði með  yfirtökum samhliða innri vexti.   Þetta er í annað sinn sem 3i fjárfestir í Refresco. 3i var stærsti eigandi Refresco á árunum frá 2003 til 2006, sem voru farsæl rekstrarár og hagnaðist 3i vel á fjárfestingu sinni við sölu í apríl 2006. Stoðir, Kaupþing og Vífilfell keyptu þá 80% hlutafjár Refresco og innleiddu ásamt stjórnendum sóknarstefnu (“buy&build”) um uppbyggingu Refresco með yfirtökum samhliða hagræðingu og innri vexti. Á síðastliðnum þremur árum hafa tekjur og arðsemi Refresco tvöfaldast. Heildarvelta Refresco á árinu 2009 nam um 1,2 milljörðum evra, yfir 200 milljörðum íslenskra króna. Eftir hlutafjáraukninguna sem kynnt var í dag eiga Stoðir, Kaupþing og Vífillfell samtals 62% hlut í Refresco.