Íbúar Kenýa geta nú átt von á allt að fjögurra ára fangelsisvist finnist þeir sekir um að nota eða selja plastpoka. Í frétt Financial Times kemur fram að stjórnvöld í landinu hafi í gær innleitt ströngustu lög í heiminum sem miða að því að draga úr umhverfisspjöllum af völdum plasts.

Bannið nær yfir notkun, framleiðslu og innflutning á plastpokum. Judy Wakhungu, umhverfisráðherra landsins segir að til að byrja með muni bannið miða að framleiðslu- og dreifingaraðilum. „Almenningi verður hlíft fyrst um sinn. Við gerum okkur grein fyrir því að það mun taka fólk tíma að breyta venjum sínum,“ sagði Wakhungu.

Rökstuðningur stjórnvalda við banninu byggir á því að allt að 300 milljónir plastpokar eru notaðir í Kenýa á hverju ári. Stærstum hluta pokanna er hent á óumhverfisvænan hátt og að það taki aldir fyrir pokanna að brotna niður.

Umhverfisstofnun landsins sendi í gær smáskilaboð á milljónir Kenýabúa til að minna þá á að bannið hafi tekið gildi. Fulltrúarstofnunarinnar hafa leyfi til þess að stöðva og leita á fólki vegna notkunar á plastpokum. Ferðamenn sem koma með plastpoka til landsins verðu gert að skilja þá eftir á flugvellinum áður en þeir stíga fæti inn í landið.

Nokkrar undantekningar eru þó á banninu. Notkun plasts verður leyfð við pökkun í framleiðslu og undir ruslapoka.

Samtök iðnframleiðenda í landinu hafa mótmælt banninu harðlega. Í tilkynningu frá samtökunum segir að yfir 176 plastframleiðslufyrirtæki séu staðsett í landinu. Þessi fyrirtæki skapi bein störf fyrir 2,89% starfandi Kenýabúa auk þess sem iðnaðurinn skapi óbeint um 60.000 störf. „Bannið mun hafa neikvæð áhrif á lífsviðurværi þessa starfsfólks.“